Óflokkað

Vísindadagar framundan

Á morgun hefjast vísindadagar í FAS en þá er hefðbundið nám sett til hliðar í þrjá daga og nemendur og starfsfólk taka sér annað fyrir hendur.

Að þessu sinni er ætlunin að kynna sér Vestrahorn og Stokksnes en það svæði er um margt einstakt og margt að sjá. Nemendum verður skipt í fjóra hópa og hver hópur skoðar ákveðin atriði. Hópur 1 ætlar að skoða sögu og mannlíf á svæðinu. Hópur 2 ætlar að kynna sér jarðfræði og landslag sem er stórbrotið. Hópur 3 ætlar að finna þjóðsögur og örnefni sem tengjast svæðinu og hópur 4 mun skoða ratsjárstöðina og sögu hersins.

Vinnan á opnum dögum hefst klukkan 8:30 í fyrramálið og þá er ætlunin að fara að safna upplýsingum og vinna úr þeim. Á miðvikudag eiga nemendur að undirbúa kynningar sem verða síðan notaðar á fimmtudaginn þegar verður gengið fyrir Horn. Þá er ætlunin að staldra við á nokkrum stöðum og nemendur segi frá upplýsingum sem þeir hafa safnað.

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Kristján áfangastjóri kynnti skipulagið á vísindadögum.