Óflokkað

Fróðleg fræðsla í FAS

Það koma alltaf af og til góðir gestir í sveitarfélagið okkar með ýmis konar fræðslu og miðla af reynslu sinni. Við í FAS reynum oftar en ekki að nota tækifærið og fá gestina til að hitta okkar nemendur.

Miðvikudaginn 8. október kom til okkar dr. Erla Björnsdóttir sem er manna fróðust um svefn og svefnvenjur. Hún fór yfir hvernig svefn skiptist í mismunandi stig og mikilvægi þess að hver einstaklingur skapi sér góðar svefnvenjur. Þá fjallaði hún líka um hvaða atriði eru líkleg til að hafa slæm áhrif á svefngæði og hvernig það birtist hjá hverjum og einum. Við þökkum Erlu kærlega fyrir gott og þarft innlegg.

Þann 9. október komu Tómas Daði Bessason, sálfræðingur hjá Píeta samtökunum, og Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona, í vinnustund í FAS og héldu fræðslu fyrir nemendur undir yfirskriftinni „Segðu það upphátt!

Í fræðslunni var fjallað á opinskáan og uppbyggilegan hátt um andlega líðan, von og bjargráð, og lögð áhersla á mikilvægi þess að við tölum saman um það sem skiptir máli.

Verkefnið Segðu það upphátt! er hluti af landsferðalagi Píeta samtakanna og er fjármagnað af landssöfnun Lions á Íslandi.