Fréttir frá NemFAS

Á þriðjudagskvöldið hélt NemFAS vinnufund þar sem línur voru lagðar fyrir skólaárið. Krakkarnir lögðu höfuðið í bleyti og upp komu margar skemmtilegar hugmyndir að viðburðum og uppákomum. Líklega spillti ekki fyrir að krakkarnir mauluðu á pizzu á meðan þau létu hugann reika.
Föstudaginn 7. nóvember verður mikið um að vera í FAS en þá verða Austfirsku Ólympíuleikarnir haldnir hér á Höfn. Þá fáum við góða gesti frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands. Nemendur ætla að reyna með sér í alls kyns þrautum og deginum lýkur síðan með balli. Það er mikil vinna að skipuleggja viðburð sem þennan og það fór dágóður tími í það á vinnufundinum. Það er greinilega orðinn mikill spenningur og tilhlökkun fyrir leikunum.
Það er gaman að sjá vinnuna hjá krökkunum og við hlökkum til komandi skólaárs en viljum líka hvetja alla nemendur til að taka virkan þátt í félagslífinu.