Óflokkað

Námsmat framundan í FAS

Námsmat í FAS byggist á leiðsagnarmati og á þessari önn eru tekin upp ný viðmið í námsmatinu. Nemendur fá nú endurgjöf tvisvar sinnum á önn á svokölluðum vörðum sem kallast leiðarljós og vegvísir. Vörðunum er ætlað að veita nemendum upplýsingar um stöðu þeirra í einstaka áföngum auk þess sem þeir fá tækifæri til að ræða framvindu námsins við kennara sína. Vörðurnar koma í stað þess sem áður var kallað miðannarmat.

Á vörðum er notast við þriggja stiga skala: G (gott) – V (viðunandi) og Ó (óviðunandi), ásamt skriflegum ábendingum frá kennara. Í matinu er notast við flest þekkt mælitæki í skólastarfi, t.d. ígrundun kennarans, munnleg- og skrifleg próf, sjálfsmat, verkefni af ýmsum toga og virkni nemenda í tímum ásamt mætingu í kennslustundir. Endurgjöf kennara á vörðum endurspeglar því ekki eingöngu einkunnir nemandans í viðkomandi áfanga heldur eru fleiri þættir sem liggja til grundvallar vörðumati kennara.

Föstudaginn 19. september er námsmatsdagur í FAS. Þá eiga nemendur frí og kennarar eiga að setja inn mat í Innu. Í næstu viku sem kallast vörðuvika munu kennarar hitta nemendur sína í spjalli þar sem þeir fara saman yfir stöðuna.