Gróðurreitir FAS á Skeiðarársandi skoðaðir

Í gær fóru staðnemendur í inngangsáfanga að náttúruvísindum á Skeiðarársand í gær til að vitja gróðurreita sem FAS hefur fylgst með frá árinu 2009. Það er mikilvægt að fara alltaf á svipuðum árstíma til að afla gagna svo upplýsingar verði sem sambærilegastar á milli ára.
Fyrir ferðina er nemendum skipt í hópa og allir eru með hlutverk. Það er margt sem þarf að skoða í ferðinni og mikilvægt er að skrá allar upplýsingar skýrt og skilmerkilega. Nemendur þurfa að skoða hvaða gróður er að finna í reitunum, áætla gróðurþekju innan reitanna og samsetningu hennar, telja allar trjáplöntur og ef trjáplanta hefur náð 10 cm hæð þarf að mæla hæð hennar, finna lengsta árssprota, athuga hvort hún myndar rekkla og eins að athuga ummerki um beit eða ágang skordýra.
Veður í gær var ákjósanlegt til útiveru og athuganir og mælingar gengu ljómandi vel. Með í för voru þær Hólmfríður frá Náttúrustofu Suðausturlands sem stjórnaði öðrum hópnum á vettvangi og Heiða Vilborg okkur til halds og trausts.
Sumarið 2024 var ekki plöntunum á Skeiðarársandi sérlega hagstætt en nú virðast aðstæður betri. Merkustu tíðindin í ferðinni í gær er líklega að í reiti 2 var í fyrsta skipti merkt planta sem hafði náð meira en 10 sentimetra hæð.
Næstu daga munu nemendur vinna skýrslu um ferðina þar sem m.a. er verið að bera saman upplýsingar á milli ára.
- Skeiðarársandsgengið 2025.
- Vinnan í gær hófst í reit 3.
- Hópur 1 við annað tréð sem er utan reita.
- Margar birkiplöntur voru bæði með nýrri og eldri rekkla.
- Hér er verið að skoða litla birkiplöntu.
- Hæðin mæld.
- Stakt tré í jökulkeri.
- Hér sjást vel skemmdir á tré frá því í fyrra.
- Nestispásan hjá hópi 2 var tekin í jökulkeri en það er mikið af þeim á sandinum.
- Steinarnir í gömlu réttinni eru margir þaktir skófum.
- Hópur 1 kemur til baka úr sínum leiðangri.