Óflokkað

Isabella Tigist hlýtur styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ

Í gær veitti Háskóli Íslands styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ en sá sjóður var stofnaður árið 2008 og var núna úthlutað úr honum í átjánda sinn. Sjóðurinn styður afreksnema til háskólanáms en við val á styrkþegum er litið til námsárangurs á stúdentsprófi auk frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum.

Að þessu sinnu fékk þrjátíu og einn nemi sem náði framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og hóf grunnnám í Háskóla Íslands nú í haust styrk. Það er okkur í FAS mikið gleðiefni að á meðal styrkþega í ár er Isabella Tigist Felekesdóttir sem útskrifaðist í vor frá okkur í FAS. Í umsögn frá Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ kemur eftirfarandi fram um Isabellu:

Isabella Tigist Felekesdóttir var dúx Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellsssýslu
við útskrift í vor og hlaut viðurkenningar fyrir góðan árangur í spænsku, íslensku
og félagsgreinum. Hún var afar virk í félagslífi skólans og tók auk þess þátt í
Erasmus+ og Nordplus-verkefnum á meðan á námi stóð. Isabella hefur hafið nám í félagsfræði. 

Við óskum Isabellu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni sem og styrkþegum öllum alls hins besta. Nánar má lesa um styrkveitinguna hér. 

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá Isabellu taka við viðurkenningunni frá Silju Báru Ómarsdóttur rektor HÍ.

©Kristinn Ingvarsson